Challah með fíkjum og bleiku greipi

28/10/2015

Brauð, Matur

A1

Ég talaði um það um daginn að ég væri lítið búin að horfa á sjónvarpið í fæðingarorlofinu en ég verð að viðurkenna að ég hef aðeins spýtt í lófana á þeim vettvangi upp á síðkastið. Þetta fór eiginlega alveg út í tóma vitleysu um daginn þegar ég álpaðist til að horfa á The Great British Bake Off. Það komst ekki mikið annað að næstu daga og þó ég geti engan veginn útskýrt hvað er svona spennandi við að horfa á fólk keppast um að baka í stóru tjaldi út í sveit á Englandi þá var ég alveg dolfallin yfir þessu. Keppendur fengu allskyns flókin verkefni, allt frá því að baka ciabatta yfir í sænska prinsessutertu og ég var alveg heilluð af öllu saman.

Þessi blessaði þáttur varð til þess að mig langaði skyndilega alveg afskaplega mikið til að baka. Ég verð að viðurkenna að ég hef frekar litla reynslu af brauðbakstri en það er samt alltaf eitthvað sem mig langar til að vera góð í. Ég hef bara ekki æft mig nógu mikið hingað til en nú skal bæta úr því og ég réðst ekkert á garðinn þar sem hann er lægstur þegar ég ákvað að prófa þetta fyllta challah brauð. Ég er alveg fyrst til að viðurkenna að þetta er ekki fallegasta challah í heimi en ég veit af hverju og geri því betur næst. Er það ekki tilgangurinn með því að æfa sig?

Það er reyndar alls ekkert svo flókið að gera þetta brauð en trikkið er að ná að gera lengjurnar sem mynda fléttuna nógu langar og jafnþykkar svo brauðið bakist jafnt og fallega. Mér tókst það ekki alveg svo brauðið gliðnaði aðeins í sundur í miðjunni en ég geri bara betur næst og þið gerið betur strax því ég er búin að vara ykkur við! Brauðið var gríðarlega gómsætt þó það hafi gliðnað smá og það er nú aðalatriðið. Uppskriftin er lítillega aðlöguð úr The Smitten Kitchen Cookbook.

A2

A3

A4

A5

A6

A7

A8

A9

A10

A11

 

Challah með fíkjum og bleiku greipi

Brauð:

1 pakki þurrger (12,6 g)
1/4 bolli + 1 tsk hunang
2/3 bolli volgt vatn
1/3 bolli ólífuolía
2 stór egg
2 tsk sjávarsalt í flögum
4 bollar hveiti

Fylling:

1 bolli (u.þ.b. 150 g) þurrkaðar gráfíkjur, skornar í bita
1 msk greip börkur
1/2 bolli vatn
1/4 bolli greipsafi
1/8 tsk sjávarsalt
Smá svartur pipar

Ofan á:

1 egg
Sjávarsalt í flögum til að dreifa yfir

Hrærið þurrgeri og 1 tsk af hunangi saman í skál ásamt volgu vatni og leyfið að standa í nokkrar mínútur eða þar til blandan er farin að freyða aðeins. Setjið gerblönduna í hrærivélarskál ásamt afganginum af hunanginu, 1/3 bolla af ólífuolíu og eggjum. Bætið salti og hveiti saman við og blandið gróft saman þar til þetta er farið að mynda deig. Setjið hnoðarann í hrærivélina og hnoðið í 5-8 mínútur (ég hnoðaði í 7).  Að sjálfsögðu er einnig hægt að hnoða deigið í höndunum. Takið deigið upp úr skálinni í smá stund, þekið skálina með ólífuolíu og látið deigið aftur ofan í. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið að hefast á hlýjum stað í 1 klst eða þar til deigið hefur tvöfaldast.

Gerið fíkjumaukið á meðan brauðið er að hefast. Takið til lítinn pott og setjið fíkjur, greipbörk, vatn, greipsafa, salt og smáræði af svörtum pipar. Hitið að suðu og látið malla þar til fíkjurnar eru orðnar mjúkar, u.þ.b. 10 mínútur. Saltið og piprið eftir smekk. Takið af hitanum og látið kólna lítillega. Setjið í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til blandan er orðin að frekar fíngerðu mauki. Kælið.

Þegar deigið hefur hefast er kominn tími til að fylla það. Setjið smá hveiti á vinnuborðið, skiptið deiginu í tvennt og fletjið annan hlutann út í nokkuð stóran ferhyrning. Þetta þarf alls ekki að vera fullkominn ferhyrningur. Dreifið helmingnum af fíkjumaukinu jafnt yfir deigið en skiljið smá brún eftir yst. Rúllið deiginu upp í langa rúllu þannig að fyllingin sé innan í henni. Teygið þá rúlluna mjög varlega þannig að hún lengist. Því lengri sem rúllan er því betra en passið samt að slíta ekki deigið. Skerið rúlluna að lokum í tvennt. Endurtakið þetta með hinn helminginn af deiginu og fyllingunni svo það verði að lokum til fjórar rúllur.

Nú er komið að því að flétta brauðið. Leggið tvær rúllur í hvora átt, þannig að þær krossi. Raðið þeim þannig að hver rúlla sé undir einni rúllu og yfir annari. Takið endana fjóra sem eru undir og færið þá til hægri þannig að þeir fari yfir. Takið endana sem voru til hægri og látið þá fara yfir en nú til vinstri. Endurtakið svona hægri-vinstri hopp eins lengi og hægt er en líklega náið þið bara einum umgangi. Stingið endunum undir deigið til að loka brauðinu. Best er að skoða myndirnar til að sjá hvernig þetta er gert.

Færið deigið yfir á bökunarplötu sem búið er að setja bökunarpappír á. Þeytið egg lauslega með gaffli og penslið því yfir. Látið brauðið hefast í annan klukkutíma og hitið ofninn á meðan í 190°C.

Penslið deigið aftur með restinni af egginu áður en það fer inn í ofninn og dreifið svo sjávarsalti yfir. Bakið í 40-65 mínútur en bökunartíminn fer satt að segja eftir lögun brauðsins. Ef deigrúllurnar voru stuttar þá verður brauðið hærra í miðjunni og þarf lengri bökunartíma. Hægt er að nota kjöthitamæli til að athuga hvort brauðið er tilbúið en það á að vera 90°C heitt í miðjunni. Ef brauðið er að brúnast mjög hratt þá er best að setja álpappír lauslega yfir það.

Athugasemdir:

Upprunalega uppskriftin var með appelsínu í stað greips en ég átti bara greip svo ég notaði það. Það kom virkilega vel út en passið vel að rífa aðeins ysta lag greipbarkarins niður því hvíti hluti hans er mjög beiskur.

Gefið ykkur góðan tíma til að útbúa þetta brauð. Það þarf tvær hefanir og bakstur sem taka samtals 3 klst fyrir utan sjálfa vinnuna við að fletja deigið út og vinna það.

Uppskriftin er lítillega aðlöguð útgáfa af Fig, Olive Oil And Sea Salt Challah úr bókinni The Smitten Kitchen Cookbook eftir Deb Perelman.

, , ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

No comments yet.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: